Monday, March 14, 2011

í bónus

Þær stóðu í dágóða stund í grænmetiskælinum í Bónus og töluðu saman. það var nokkuð ljóst að þær höfðu ekki hist í dágóða stund og höfðu um ýmislegt að tala. já, henni leið ótrúlega vel. Fullt af hreyfingum og bara almenn vellíðan. Segist brosandi bráðum verða eins og hvalur. Nóg að gera hjá henni, hún komin með tvær vinnur þrátt fyrri að eiga von á barni og líka í námi.
Þær voru búnar að standa þarna í, örugglega 10 mínútur, þegar síminn hennar hringir. Æ, þetta er maðurinn minn. Við erum sko saman að versla - ætli hann sé ekki orðinn brjálaður?
"Hæ, elskan. Erum við búin að versla? Hvar ertu? Já, ég sé þig". Svo vinkar hún brosandi til enn meira brosandi kærasta síns. Knúsar vinkonu sína og fer og finnur kærastann með frosna unghænu í hendinni.

Sunday, March 13, 2011

Konan sem kyndir ofninn sinn

Ég var búin að taka eftir henni og fylgjast með í smá stund. Svona miðaldra kona sem er dugleg að sinna sínu. Hún tók vel á í ræktinni, í góðum hlaupabuxum og bol í stíl. Fer pottþétt í Flugleiðahlaupið, Jónsmessuhlaupið og örugglega Reykjavíkurmaraþonið – ef hún er í bænum.
Á milli setta í axlapressunni tekur hún upp símann: Stilltu ofninn á 200 og hitaðu vatn fyrir sósuna. ... já... láttu suðuna bara koma upp ég fer að koma. Ok bless... svo kárar hún æfinguna áður en hún fer heim til að skutla kjötinu í ofninn og klára sósuna.