Saturday, April 23, 2011

litlu börnin

Stúlkurnar eru farnar og koma ekki til baka fyrr en á öðrum degi páska. Unglingurinn er innilokaður í sínu herbergi með ljósi lífs síns.. tölvunni. Ætti kannski að skvera honum í sund með móður sinni, hann gæti tekið það með sér út í lífið. Brotið sálartetur, neyddur með asnalegri móður sinni í sund - í sjálfu páskafríinu. Nei, kannski ég heyri bara í einhverjum öðrum með þetta.
Finnst þetta margir tímar og langir og margt sem ég get gert og ætla að gera og þarf að gera. Svona "Jódu tími" En svo koma þær bara bráðum og kannski verð ég ekki búin að gera neitt nema borða páskaegg og fjarlægja óþarfa líkamshár.

Friday, April 22, 2011

Vinir

Stundum er svo gott að setjast niður og hugsa um lífið sitt. Ég var að velta fyrir mér hvaða fólk væri í sérstökum einkahólfum í hjartanu mínu og mér til mikillar gleði fann ég að það voru þó nokkrir sem ég elska og þyki vænt um þrátt fyrir að vera alls ekki í reglulegu sambandi við. mér finnst ég gæfusöm að eiga góða vini.

Monday, April 18, 2011

Einu sinni

var hann stórtækur í viðskiptum. Átti stórt hús við Ægissíðuna og gerði business eins og vindurinn. Svo keypti hann kaffihús og var bara flottur en kannski örlítið ruglaður og þvældist stundum fyrir starfsfólkinu. Núna situr hann á bekk og horfir út á hafið. Styður sig við stafinn og horfir út á hafið.

Friday, April 15, 2011

fiðrildi

Ég er ástfangin af sjálfri mér og ég elska mig af öllu hjarta, með kostum mínum og göllum. Það er hjá þér komið hvort þú gerir slíkt hið sama - hvort tveggja við mig og þig. Mér er ekki sama, en þú bara ræður því.

Thursday, April 14, 2011

innlit dagsins

Yndislega pólska bakarískonana: góðan daginn
ég: góðan daginn, ég ætla að fá rúnstykki... eitt svona. Bendi á kornhleif.
sú pólska: ... og tvo osta?
ég: brosi til hennar og hugsa "jeij.. hún veit hver ég er" og segi ´"já, einmitt... og sultu"

Geng svo að sulturekkanum og ákveð að vera svolítið villt og tek sólberjasultu og rétti þeirri póslku.

sú pólska lendir augljóslega í einhverjum vandræðum þegar hún er að stimpla inn í kassann. og segir svo: "ah.. ekki jarðaberjasulta"

og ég geng út í daginn svo sátt við að vera ein af sérvitringunum í bakaríinu sem kaupa alltaf það sama en verða stunum ótrúlega flippaðir og fá sér sólberjasultu og setja allt á annan endann við það.